Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Udinese sem laut í lægra haldi fyrir Sassuolo á heimavelli í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 1-2, Sassuolo í vil.
Seko Fofana kom Udinese yfir strax á 7. mínútu. Þannig var staðan fram á 70. mínútu þegar Gregoire Defrel jafnaði metin. Hann var svo aftur á ferðinni níu mínútum síðar þegar hann skoraði sigurmark Sassuolo.
Emil fékk gult spjald eftir hálftíma leik. Hann var tekinn af velli þegar átta mínútur voru eftir.
Þetta var annað tap Udinese í röð en liðið er komið niður í 13. sæti deildarinnar.
Napoli vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Chievo á útivelli, 1-3.
Lorenzo Insigne, Marek Hamsik og Piotr Zielinski skoruðu mörk Napoli sem er komið upp í 2. sæti deildarinnar. Roma getur endurheimt 2. sætið með sigri á Torino í kvöld.
Gabriel tryggði Inter 0-1 sigur á Bologna á útivelli. Inter er í 4. sæti deildarinnar.
Þá vann botnlið Pescara 5-0 stórsigur á Genoa og Sampdoria og Cagliari gerðu 1-1 jafntefli.
Úrslit dagsins:
Udinese 1-2 Sassuolo
Chievo 1-3 Napoli
Bologna 0-1 Inter
Pescara 5-0 Genoa
Sampdoria 1-1 Cagliari
