Innlent

Ákærður fyrir tilraun til manndráps í Seljahverfinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn neitar sök.
Maðurinn neitar sök. Vísir/getty
Karlmaður um þrítugt hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið kunningja sinn með hnífi í heimahúsi í Seljahverfinu í Breiðholti í höfuðborginni laugardaginn 5. nóvember. 

Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn í nóvember en í greinargerð lögreglu sem fylgdi kröfu um gæsluvarðhald segir að ákærði hafi stungið manninn í kjölfar rifrildis þeirra og þriðja manns. 

Mennirnir tveir voru ósáttir við að ákærði væri að fela fyrir þeim bjór sem þeir töldu sig eiga inni hjá honum. Varð ákærði ósáttur við ávirðingarnar, fór inn í eldhús og sótti sér hníf. Lýsingar mannanna eru á þá leið að ákærði hafi verið æstur og ógnandi þar sem hann hélt á hnífnum.

Reyndi að ná hnífnum af manninum

Í framhaldinu reyndi sá sem fyrir hnífnum varð að ná honum af honum með því að taka í hönd hans en það endaði með því að maðurinn var stunginn í síðuna. Flúði maðurinn inn á baðherbergi íbúðarinnar.

Í ákærunni á hendur manninum kemur fram að maðurinn hafi hlotið stungusár á vinstri síðu, skurð sem gekk inn í brjósthol, litlar afrifur úr rifi og féll vinstra lunga hans saman að hluta, sem og stungusár á vinstri kinn, skurð sem gekk inn í munnhol og tannarbrot.

Farið er fram á tvær milljónir króna í skaðabætur fyrir hönd fórnarlambsins.

Neitar sök

Ákærði í málinu hefur neitað sök en hann kannast ekki við að hafa stungið manninn. Hann neitar því þó ekki að hnífurinn gæti hafa stungist í fórnarlambið í átökunum. Hann hafi gripið til hnífsins til að verjast mönnunum og hræða þá.

Maðurinn hefur nú verið í gæsluvarðhaldi í um þrjá mánuði á grundvelli almannahagsmuna en brotið sem hann er ákærður fyrir getur varðað allt að sextán ára fangelsi.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×