Lífið

Laumaði sér í þáttinn hans Kimmel: „Guð hatar Jimmy svo mikið að hann lét þetta gerast“

Birgir Olgeirsson skrifar
Matt Damon sem Tom Brady í Jimmy Kimmel í gær.
Matt Damon sem Tom Brady í Jimmy Kimmel í gær. YouTube
Leikarinn Matt Damon náði að troða sér í þátt Jimmy Kimmel í gær. Það gerði leikarinn með því að þykjast vera Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots, sem vann Ofurskálina eftirsóttu í hádramatískum leik um liðna helgi.

Í rúman áratug hafa þeir Damon og Kimmel eldað grátt silfur saman, allt í nafni grínsins, þar sem Kimmel hefur reynt allt hvað hann getur til að gera lítið úr leikaranum, allt í nafni góðs gríns. Kimmel byrjaði grínið snemma á ferli sínum sem spjallþáttastjórnandi og tilkynnti áhorfendum í lok hvers þáttar að hann vildi biðja Matt Damon afsökunar því ekki hefði verið tími til að ræða við hann.

Í september árið 2006 mætti Damon loks í þáttinn en þegar kom að því að ræða við hann reyndist þátturinn búinn og missti Damon gjörsamlega stjórn á skapi sínu.

Svona hélt þetta áfram í fjölda mörg ár og náði nokkurskonar hápunkti eftir Óskarsverðlaunahátíðina í fyrra þegar leikarinn Ben Affleck laumaði Damon inn í þáttinn.

Matt Damon huldi andlit sitt í þættinum í gær með hjálmi en var svo að lokum neyddur af Kimmel til að taka hann af sér. Hann fagnaði ógurlega og sagðist loksins hafa náð inn í þáttinn.

„Guð hatar Jimmy svo mikið að hann lét þetta gerast,“ sagði Damon eftir þáttinn. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×