Erlent

Obama styður mótmælin gegn Trump: „Bandarísk gildi eru í húfi“

atli ísleifsson skrifar
Barack Obama og Donald Trump
Barack Obama og Donald Trump Vísir/afp
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segist styðja þau mótmæli sem beinast gegn Donald Trump í Bandaríkjunum.

Í yfirlýsingu sem Obama sendi frá sér í dag gagnrýnir hann nýlega tilskipun Trump og segir að verið sé á mismuna einstaklingum á grunni trúar. „Bandarísk gildi eru í húfi,“ segir Obama.

Í frétt Washington Post er haft eftir Kevin Lewis, talsmanni Obama, að forsetinn álíti mótmælin, sem nú eiga sér stað víðs vegar um landið, vera uppörvandi. Þá hafnaði hann jafnframt að tilskipun Trump hafi verið byggð á stefnu Obamastjórnarinnar.

Þetta er fyrsta yfirlýsing sem Obama hefur sent frá sér frá því að hann lét af embætti þann 20. janúar síðastliðinn. Bandarískir forsetar hafa jafnan haft hægt um sig fyrstu dagana eftir að þeir láta af störfum og leyfa arftaka sínum að eiga sviðið.

Samkvæmt nýlegri tilskipun Trump hefur öllum ríkisborgurum Íraks, Írans, Líbíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens verið meinuð innganga í Bandaríkin. Bannið gildir einnig um þá sem hafa varanlegt dvalar- og atvinnuleyfi í Bandaríkjunum.

Töluverð ringulreið skapaðist á flugvöllum í Bandaríkjum um helgina, skömmu eftir að tilskipunin tók gildi og festust fjölmargir ríkisborgarar þessara ríkja á flugvöllunum eftir að þeim var ekki hleypt inn í Bandaríkin á grundvelli tilskipunarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×