Fótbolti

Kári: Byrjunin á góðu ævintýri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Vísir/Getty
Landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason er genginn í raðir kýpverska liðsins Omonoia Nicosia frá Malmö í Svíþjóð. Kári átti gott tímabil með Malmö er liðið varð meistari í fyrra. Þrátt fyrir það var Malmö tilbúið að láta hann fara.

„Í rauninni ekki. Þetta gekk nokkuð hratt fyrir sig. Það voru önnur lið sem höfðu áhuga sem flækti málið dálítið. En á endanum held ég að ég hafi komist að réttri niðurstöðu og vonandi verður það raunin,“ sagði Kári Árnason um aðdraganda félagaskiptanna frá Malmö til Omonoia Nicosia á Kýpur.

Omonoia er stórt félag og það næstsigursælasta á Kýpur, á eftir APOEL. Omonoia hefur 20 sinnum orðið kýpverskur meistari, síðast árið 2010. Þá er liðið fastagestur í Evrópukeppnum. En hvað var það sem heillaði Kára við Omonoia?

„Þeir eru keppast við að komast í Evrópukeppnina og þetta er stærsta liðið á eyjunni. Svo þekki ég til þjálfara og leikmanna þarna og þeir eru allir mjög jákvæðir. Þessir þættir spiluðu inn í,“ sagði Kári. Hann lék með Íranum Cillian Sheridan hjá Plymouth Argyle og enska framherjanum Matt Derbyshire hjá Rotherham United en þeim er vel til vina.

Stuðningsmenn Newcastle United kannast eflaust vel við þjálfara Omonoia en hann stýrði Newcastle með litlum árangri seinni hluta tímabilsins 2014-15. Það er ekki eina Newcastle-tengingin því íþróttastjóri Omonoia er Nikos Dabizas sem lék með enska liðinu á árunum 1998-2003.

Omonoia er í 5. sæti kýpversku deildarinnar þegar fimm umferðum er ólokið. Eftir það tekur við úrslitakeppni liðanna í 1.-6. sæti um meistaratitilinn. Þar leika liðin heima og að heiman, alls tíu leiki.

„Þeir eru í toppbaráttunni. Fyrsta sætið er svolítið í burtu en það er ekki langt í 2. sætið [sex stig]. Það er ekki neitt neitt. Það er stefnt á umspil. Svo eru þeir í bikarnum, þannig að þetta er kapphlaup að Evrópusæti,“ sagði Kári um möguleika Omonoia.

Kári átti góðu gengi að fagna þau tæpu tvö ár sem hann var í herbúðum Malmö. Hann lék með liðinu í Meistaradeild Evrópu og varð sænskur meistari með því í fyrra. Kári lék 24 af 30 leikjum Malmö í sænsku deildinni í fyrra og var fyrirliði í nokkrum þeirra. Samt var Malmö tilbúið að selja hann.

„Það kom bara upp ákveðið mál í Malmö og það var ákveðið að fara í sitt hvora áttina,“ sagði Kári sem vildi ekki tjá sig nánar um hvað þetta „ákveðna mál“ snerist.

„Þetta er mjög skrítinn heimur og erfitt að útskýra þetta. Stundum skil ég þetta ekki sjálfur þótt ég sé í miðjunni á þessu. Í þessu tilviki skildi ég alveg ekki hvað var að eiga sér stað. Þetta varð útkoman. Skjótt skipast veður í lofti. Það á mjög vel við fótboltann og heiminn í kringum hann,“ sagði Kári sem er ætlað að styrkja varnarleik Omonoia sem hefur ekki verið nógu sterkur í vetur.

Kári hefur átt fast sæti í íslenska landsliðinu undanfarin ár og átt stóran þátt í velgengni þess. En telur hann að þessi breyting, að færa sig um set til Kýpur, hafi áhrif á stöðu hans í landsliðinu?

„Ég vona ekki. Það er bara Heimir [Hallgrímsson] sem ákveður það. Ég vil spila áfram og tel mig hafa spilað ágætlega í síðustu leikjum. Það er minn metnaður að spila áfram með landsliðinu og hjálpa liðinu að komast á HM. Það er mitt markmið,“ sagði Kári sem hefur leikið 58 landsleiki og skorað þrjú mörk.

Að sögn Kára eru allar aðstæður hjá Omonoia í góðu lagi og hann hlakkar til lífsins á Kýpur.

„Ég er búinn að skoða klúbbinn. Aðstæður eru mjög fínar og það er ekki hægt að kvarta yfir neinu. Veðrið hérna er mjög gott, lífsgæðin eru mikil og það er frekar ódýrt að búa hérna. Ég held að þetta sé byrjunin á góðu ævintýri og skemmtilegum hluta af lífi mínu,“ sagði Kári að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×