Innlent

Lögregla býst við þúsundum í minningargöngu um Birnu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ekkert nýtt hefur komið fram í rannsókn lögreglu í máli Birnu Brjánsdóttur í dag. Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að hafa ráðið henni bana voru ekki yfirheyrðir í dag og á Grímur Grímsson, sem stýrir rannsókn málsins, ekki von á því að þeir verði yfirheyrðir næst fyrr en eftir helgi.

Búist er við því að þúsundir manna taki þátt í minningargöngu um Birnu sem fer fram á morgun. Skipuleggjendur göngunnar segjast hafa fengið frábærar viðtökur. Fjölskylda Birnu sé þakklát fyrir framtakið.

Það er óhætt að segja mál Birnu Brjánsdóttur, sem hvarf sporlaust úr miðbæ Reykjavíkur þann 14. janúar og fannst látin síðastliðinn sunnudag, hafi snortið marga Íslendinga og er samúð með foreldrum, ættingjum og vinum Birnu áþreifanleg.

Um fjögur þúsund manns hafa boðað komu sína á Facebook en í samtali við fréttastofu segist lögregla búast við því að þúsundir manna taki þátt.

Lögreglan mun loka götum í miðbænum á meðan gangan stendur yfir í samstarfi við Reykjavíkurborg en hér að neðan má sjá kort af þeim götum sem lokað verður.

Gangan hefst klukkan fjögur við Laugaveg 116 á móts við Hlemm. Þeir sem vilja geta lagt blóm við laugaveg 31 þar sem Birna sást síðast. Gangan heldur áfram niður Laugaveg, Ingólfsstræti og á Arnarhól þar sem fólk mun kveikja á kertum. Gangan endar í Lækjargötu þar sem verður einnar mínútu þögn til minningar um Birnu. 

Skipu­leggj­end­ur göngunnar, þær Ninna Karla Katrínardóttir, Guðrún Eva Brandsdóttir og Bryndís Ósk Oddgeirsdóttir, segjast hafa tekið málið mjög nærri sér þrátt fyrir að hafa ekki þekkt Birnu. Þær langaði að minnast Birnu og sýna samstöðu með fjölskyldu hennar. Þær hafi vitað að Íslendingar væru harmi slegnir en bjuggust þó ekki við því að svo margir myndu boða koma sína þegar þær stofnuðu viðburðinn.

Þær hafa ráðfært sig við lögreglu og borgaryfirvöld og vonast til þess að allt muni ganga vel.

Smella má á myndina til að sjá stærri útgáfu.Mynd/Reykjavíkurborg

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×