Erlent

Segja engan fund vera skipulagðan

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin og Donald Trump.
Vladimir Putin og Donald Trump. Vísir/EPA
Tveir aðstoðarmenn Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, segja fréttir af mögulegum fundi Trump og Vladimir Putin, forseta Rússlands, vera ósannar. Sunday Times héldu því fram á forsíðu sinni í dag að mögulega stæði til að halda slíkan fund í Reykjavík.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni segir einn aðstoðarmaður að fréttin sé „fantasía“. Þá hefur Mbl eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, að engin formleg beiðni eða erindi hafi borist til Íslands.

Það hafði vakið mikla athygli að miðað við fréttirnar hefði fyrsta embættisferð Donald Trump verið farin til að funda með Putin. 17 leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa haldið því fram að Rússland hafi beitt tölvuárásum, tröllum og öðrum aðferðum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og hjálpa Trump að vinna.

Trump hefur gefið í skyn að hann muni afnema þvinganir gegn Rússum, sem Obama setti á vegna árásanna. Ef Rússar myndu hjálpa Bandaríkjunum í baráttunni gegn Íslamska ríkinu og í öðrum verkefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×