Erlent

Engar ákvarðanir verið teknar um fund Trumps og Pútíns

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti. vísir/epa
Misvísandi fréttir af mögulegum leiðtogafundi Donalds Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta, sem fara ætti fram í Reykjavík, birtust í erlendum miðlum í gær.

Breska blaðið The Sunday Times sagði að starfsfólk Trumps undirbyggi nú fundinn en Sean Spic­er, fjölmiðlafulltrúi Trumps, segir þetta hins vegar fjarri sanni. Heimildarmenn Reuters úr herbúðum Trumps sögðu einnig að fréttin væri röng. Financial Times greindi hins vegar frá því að það væru menn Pútíns sem hefðu slíkan fund í huga og ynnu að honum. „Fyrsti fundurinn ætti hvorki að fara fram í Rússlandi né Bandaríkjunum heldur í óháðu landi,“ hefur Financial Times eftir ónefndum heimildarmanni í herbúðum Pútíns.

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti.Nordicphotos/AFP
„Sá staður er klárlega ekki London og ekki Þýskaland heldur. Þau lönd eru of óvinveitt Rússlandi. Fundurinn gæti ekki verið í Frakklandi, það væri óviðeigandi í ljósi komandi kosninga þar í landi. Hvað með Ísland?“ er enn fremur haft eftir huldumanninum.

Rússneska fréttastofan RT greindi hins vegar frá því að fréttir af slíkum fundi væru tilraun Breta til þess að grafa undan Trump. Þá sagði talsmaður Pútíns, Dmitrý Peskov, í samtali við fréttaveituna RIA að engar viðræður um slíkan fund hefðu átt sér stað.

Ef af fundinum verður kallast staðarvalið á við leiðtogafund Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhails Gorbatsjov, leiðtoga Sovétríkjanna, árið 1986. Sá fundur fór fram í Höfða.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í samtali við fréttastofu í gær að stjórnvöld væru jákvæð gagnvart slíkum fundi ef til hans kæmi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×