Innlent

Móðir Birnu: „Það er svolítið skýrt að hún er í hættu“

Birgir Olgeirsson skrifar
„Við gætum ímyndað okkur að hún hafi jafnvel farið með einhverjum erlendum af því hún hafði mikinn áhuga á að tala við fólk alls staðar að úr í heiminum,“ sagði Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, við fjölmiðla eftir blaðamannafund lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á sjötta tímanum í dag.

Hún sagði Birnu hafa nýlega skráð sig aftur inn á stefnumótamiðilinn Tinder. „Og Tinder virkar þannig að þú talar við einhvern og ætlar að hitta hann kannski bara eftir hálftíma. Það er eitthvað sem við höfum verið að hugsa,“ sagði Sigurlaug.

Sigurlaug sagði Birnu hafa kynnst ferðamönnum í fyrra sumar í gegnum Tinder. „En ekki til að vera með þeim heldur meira til að eignast vini og tengsl. Hún fór einu sinni eða tvisvar Gullna hringinn með einhverjum sem hún hafði kynnst.“

Hún sagði lögreglu reyna að nálgast lykilorð inn á Tinder-reikning Birnu til að skoða samskipti hennar þar.

Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, lögregluna vera í samskiptum við samfélagsmiðla vegna mannshvarfa og þeir hafi verið nokkuð samvinnuþýða. Búist er við að lögreglan muni fá aðgang að þeim samfélagsmiðlum sem Birna stundaði en það gæti tekið nokkra daga. Lögreglan fékk aðgang að Facebook-i Birnu með leyfi frá fjölskyldu hennar.

Sigurlaug sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum að ekki hafi verið leitað að Birnu síðastliðna nótt. „Það er svolítið skýrt að hún er í hættu. Hún er ekki að velja þetta sjálf að hverfa. Af því þetta er þannig stelpa. Hún er ekki á flótta undan einhverju og hefur ekki verið í efnum. Það er einhvers staðar verið að halda henni. Hún er ekki sjálfviljug einhvers staðar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×