Innlent

Leitin á Strandarheiði: Meðal annars kannað hvort manneskja hafi farið þar á bíl

Birgir Olgeirsson skrifar
„Við skoðum allar vísbendingar,“ segir Guðbrandur Örn Arnarson sem stýrir leit björgunarsveitarmanna á Strandarheiði og við Hafnarfjarðarhöfn vegna rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur.

Guðbrandur segir björgunarsveitarmenn fylgja eftir vísbendingum sem hafa borist vegna málsins. Vísbendingarnar geta skipt tugum eða hundruðum og er farið í gegnum þær allar.

„Þetta þarf ekki að þýða neitt endilega ,en getur þýtt allt,“ segir Guðbrandur.

Frá leitaraðgerðum við Hafnarfjarðarhöfn.Vísir/Anton Brink
Útgangspunkturinn er alltaf persónan sjálf

Leitað er með fram slóðum á Strandarheiði og er þá til dæmis kannað hvort möguleiki sé á því að manneskja hafi farið þar á bíl. Þá var slökkt á síma Birnu kvöldið sem hún hvarf og eru björgunarsveitarmenn vakandi fyrir því að leita eftir síma á svæðinu.

„Útgangspunkturinn er alltaf persónan sjálf en okkar fólk er alltaf vant því að leita eftir allskonar vísbendingum og allt sem okkur finnst markvert er skráð niður og passað upp á.“

Allskonar vísbendingar borist

Hann segir að borist hafi allskonar vísbendingar sem geta náð frá því að einhver hafi séð eitthvað sem honum fannst skrýtið eða einhver hafi verið á ferli á einum stað. „Og þetta er einn af þeim stöðum en það er ekkert sem segir okkur að þetta sé eitthvað líklegra en eitthvað annað. Þetta er ein af þeim vísbendingum sem við erum að skoða.“

"Við reynum að safna eins mikið af vísbendingum og við getum.“vísir/eyþór
Leitað í myrkri

Tæplega fjörutíu björgunarsveitarmenn leita á um 10 ferkílómetra svæði og er notast við þrjú hundateymi en Guðbrandur segir líkur á að hundum verði bætt við leitina síðar í kvöld. Hann segir að leit verði haldið áfram þar til búið verður að fara yfir svæðið.

„Við erum að leita með hundum á Strandarheiði og þá skiptir ekki máli hvort það er myrkur eða dagsbirta.“

Öllu safnað saman

Hann segir að við svona leit komi upp þúsundir vísbendinga sem björgunarsveitarmenn kanna nánar. „Ef við finnum sígarettupakka þá er hann tekinn og ljósmyndaður. Við reynum að safna eins mikið af vísbendingum og við getum. Síðan kemur kannski seinna í ljós að 99 prósent vísbendinga eða 100 prósent tilheyri einhverju öðru.“ 

Guðbrandur segir hundana ekki hafa markað lykt á þessu svæði. Sporhundur hafi aðeins einu sinni markað lykt við leit að Birnu og það hafi verið á Laugaveginum, þar sem hún sást síðast. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×