Erlent

Grindeanu nýr forsætisráðherra Rúmeníu

Atli ísleifsson skrifar
Sorin Grindeanu og Klaus Iohannis Rúmeníuforseti í gær.
Sorin Grindeanu og Klaus Iohannis Rúmeníuforseti í gær. Vísir/AFP
Ný samsteypustjórn, undir forsæti Jafnaðarmannaflokksins, hefur tekið við völdum í Rúmeníu. Sorin Grindeanu sór embættiseið sem forsætisráðherra nýrrar stjórnar sem varðist vantrausti á þinginu í gær með 295 atkvðum gegn 133.

Jafnaðarmannaflokkurinn PSD hrökklaðist frá völdum í nóvember 2015 í kjölfar mikils og mannskæðs bruna á skemmtistað í höfuðborginni Búkarest sem leiddi til mótmælafunda um land allt þar sem mikilli spillingu og lakri stjórnsýslu var mótmælt.

Skömmu fyrir áramót var greint frá því að Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, hefði ákveðið að skipa ekki hina 52 ára Sevil Shhaideh sem nýjan forsætisráðherra landsins. Shhaideh hefði orðið fyrsta konan og fyrsti músliminn til að að gegna embættinu í landinu.

PSD vann sigur í þingkosningum í Rúmeníu þann 11. desember og hlaut 45,1 prósent atkvæða. Þar sem leiðtogi flokksins, Liviu Dragnea, hafði áður hlotið dóm fyrir tilraun til kosningasvindls kaus flokkurinn fyrst að tilnefna Shhaideh sem forsætisráðherraefni sitt.

Síðar var Grindeanu tilnefndur sem forsætisráðherra landsins, en hinn 43 ára Grindeanu hefur áður gegnt ráðherraembætti fjarskipta- og samgöngumála í rúmensku ríkisstjórninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×