Erlent

Trump hótar Toyota háum gjöldum vegna framleiðslu í Mexíkó

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Donald Trump var harðorður í tísti sínu fyrr í kvöld.
Donald Trump var harðorður í tísti sínu fyrr í kvöld. Vísir/EPA
Donald Trump hótaði bílaframleiðandanum Toyota háum gjöldum ef fyirirtækið héldi áfram að framleiða bíla sína í verksmiðjum í Mexíkó. Reuters greinir frá.

Trump viðraði þessa hótun sína í tísti fyrr í kvöld sem er svohljóðandi:

 „Toyota sögðu að þeir ætluðu sér að reisa nýja verksmiðju í Baja, Mexíkó, til þess að framleiða Corolla-bíla fyrir Bandaríkjamarkað. EKKI SÉNS! Byggið verksmiðju í Bandaríkjunum eða greiðið annars háan landamæratoll.“

Þess ber þó að geta að Toyota hefur engin áform um byggingu nýrrar verksmiðju í Baja, þar er nú þegar Toyota verskmiðja. Hins vegar hyggst framleiðandinn reisa verksmiðju í mexíkósku borgini Guanajuato.

Hlutabréf Toyota féllu

Trump hefur margsinnis lýst yfir gremju sinni í garð bandarískra stórfyrirtækja sem framleiða vörur sínar erlendis á ódýran máta en þetta er í fyrsta skipti sem hann beinir spjótum sínum að erlendu fyrirtæki. Toyota er japanskur framleiðandi.

Scott Vazin, forsvarsmaður Toyota brást við tísti Trumps og fullyrti að „Toyota hlakki til að starfa með ríkisstjórn Trumps í þágu neytenda og bílaiðnarins.“

Forstjóri Toyota sagði þó að framleiðandinn ætlaði ekki að breyta áformum sínum um bílaframleiðslu í Mexíkó að svo stöddu en til stæði að taka málið til íhugunar eftir að Trump tekur við embætti forseta þann 20. janúar.

Hlutabréf Toyota á Bandaríkjamarkaði féllu um 0,7 prósent í kjölfar tístsins.

Bifreið af gerðinni Toyota Corolla sett saman í verksmiðju.vísir/getty
Setti Ford og General Motors afarkosti

Donald Trump setti bifreiðaframleiðandanum General Motors svipaða afarkosti í fyrr í vikunni. Sagði hann að ef fyrirtækið hætti ekki framleiðslu sinni á bílategundinni Chevy Cruze utan landsteinanna gæti það búist við háum tollum.

Að sama skapi hefur Trump þrýst á Ford með þeim afleiðingum að bifreiðaframleiðandinn lét af áformum sínum um að byggja verksmiðju í Mexíkó. Talsmenn Ford opinberuðu þessa ákvörðun fyrirtækisins fyrir tveimur dögum en þeir vilja meina að þrýstingur af hálfu Trumps hafi ekki átt neinn þátt í henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×