Veður segir Herbert að hafi verið ágætt þar til komið var að tíu mínútna ljósmyndastoppi kílómetra norðan við Skálpanesskála. Þá hafi skollið á óveður og því ekki farið upp í jökulinn.

Í millitíðinni hafi leiðsögumennirnir áttað sig á því að einn sleðann vantaði í hópinn. Þá hafi verið hringt á neyðarlínuna og björgunarsveitina á Flúðum og beðið um aðstoð. Jafnframt hafi tíu vanir leiðsögumenn Mountaineers, auk þriggja frá samkeppnisaðila, hafið leit.
Herbert lýsir því að ökumaðurinn, David Wilson, hafi komist að því hvernig ætti að koma sleðanum í gang eftir hálftíma. „Þvert á reglurnar, sem hann viðurkenndi að honum hefðu verið kynntar í upphafi ferðar, byrjar hann að keyra. Án þess að vera með nokkuð staðsetningartæki. Hann keyrir kílómetraleið og lendir ofan í kvos. Þar lendir hann á svellbunka þannig sleðinn missir grip og festist þar. Það dugar til þess að við getum ekki fundið hann þar sem hann er kominn langt út fyrir leiðina.“

„Þannig hann eiginlega eyðileggur gífurlega mikið fyrir sjálfum sér.“
Wilson-hjónin sögðust í gær vilja að fyrirtækinu yrði lokað. Herbert segist skilja reiði þeirra, enda ekkert grín að þurfa að bíða í langan tíma í kuldanum.
„Auðvitað verður maður reiður að þurfa að bíða svona lengi. En ég er líka verulega reiður á hinum endanum með að þau skuli ekki hafa farið eftir fyrirmælum. Þau fóru að reyna að finna sína eigin leið sem var algjörlega dauðadæmt frá upphafi.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu