Fótbolti

Sara Björk: Frábær viðurkenning að vera í hópi með bestu leikmönnum heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir er ein af bestu fótboltakonum heims.
Sara Björk Gunnarsdóttir er ein af bestu fótboltakonum heims. vísir/getty
„Ég var bara að sjá þetta á Twitter. Það er auðvitað frábær viðurkenning að vera í hópi með bestu leikmönnum heims,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðskona Íslands í fótbolta, sem í dag var tilnefnd í heimsliðið fyrir árið 2016 af alþjóðlegu leikmannasamtökunum.

Sara Björk er tilnefnd ásamt 54 öðrum fótboltamönnum en á listanum eru allar þær bestu í heiminum, þar á meðal sex leikmenn úr Ólympíumeistaraliði Þýskalands. Sara er á meðal fimmtán bestu miðjumanna heims en 3.000 leikmenn frá 48 löndum skiluðu inn atkvæði í kosninguna.

„Það er gaman að fá viðurkenningu frá leikmönnum sem maður spilar með og á móti. Þetta er bara stór viðurkenning og virkilega mikill heiður. Það er frábært að vera á meðal þessara leikmanna,“ segir Sara við Vísi.

Hafnfirðingurinn tók stórt skref á sínum ferli á síðasta ári þegar hún yfirgaf sænska meistaraliðið Rosengård og samdi við Wolfsburg í Þýskalandi sem er eitt stærsta og besta lið heims. Þar er samkeppnin miklu meiri en Sara spilar nær alla leiki.

„Ég fór frá sterku liði í gríðarlega sterkt lið þar sem samkeppnin er ótrúlega mikil. Það eru leikmenn sem ég spila með hjá Wolfsburg á þessum lista enda eru hér bara frábær leikmenn,“ segir Sara.

„Það var ákveðin áskorun fyrir mig að fara til Wolfsburg en markmiðið var alltaf að spila alla leiki og vinna titla. Að vera á þessum lista er viðurkenning sem fylgir þessari ákvörðun minni. Ég er að uppskera eins og ég hef sáð og vonandi næ ég bara að uppskera enn frekar. Það er gaman að sjá hvað maður fær þegar maður leggur á sig svona mikla vinnu.“

Sara Björk og stöllur hennar í Wolfsburg eru búnar að vinna tvo fyrstu leikina eftir vetrarfríið í þýsku 1. deildinni en þar er liðið í öðru sæti, stigi á eftir Potsdam. Sara skoraði loks sitt fyrsta deildarmark í síðasta leik.

„Loksins náði ég að skora fyrsta markið í deildinni. Það var ánægjulegt. Við förum vel af stað eftir fríið en það eru erfiðir leikir framundan,“ segir Sara og þegar hún segir erfiðir leikir þá meinar hún svo sannarlega erfiðir leikir.

„Við eigum leik á sunnudaginn á móti Leverkusen en svo förum við til Algarve með landsliðinu. Þegar ég kem svo aftur til Wolfsburg eigum við leiki á móti Bayern München í deild og bikar og þar á milli Lyon í Meistaradeildinni. Þetta eru samt leikirnir sem maður vill spila. Það vilja allir spila þessa stóru leiki,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir.

Sara Björk er fastamaður í byrjunarliði Wolfsburg.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×