Innlent

61 látinn og 200 slasaðir í Mexíkó

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Minnst sextíu og einn er látinn eftir jarðskjálftann sem reið yfir Mexíkó í fyrrakvöld. Óttast er að tala látinna muni hækka umtalsvert en skjálftinn er sá stærsti í sögu landsins.

Upptök skjálftans voru nærri héruðunum Oaxaca, Tabasco og Chiapas og var eyðileggingin gríðarleg. Skjálftinn fannst í meira en þúsund kílómetra fjarlægð frá upptökunum og sagði forseti landsins að fimmtíu milljón manns hefðu fundið fyrir honum.

Björgunarstarf hófst þegar í stað og við matarmarkað sem hrundi í bænum Juchitan unnu björgunarsveitarmenn í kolniða myrkri þar sem ekkert rafmagn er á svæðinu. Á meðan horfði almenningur á í von um að einhverjir myndu finnast á lífi.

„Öll ríkisstjórnin og fulltrúar hennar ásamt mér verða hér á staðnum. Við erum komin hingað til Oaxaca til að sýna íbúunum samstöðu. Mikilvægast af öllu er að þau viti að þau eru ekki ein,“ sagði Alejandro Murat, borgarstjóri Oaxaca við blaðamenn í dag.

Skjálftinn mældist 8,2 að stærð og er öflugasti skjálfti sem hefur riðið yfir landið. Vel á fjórða hundrað eftirskjálfta mældust þrettán klukkustundum eftir skjálftann af stærðinni 4,3 til 5,7.

Yfirvöld hafa gefið út að öllum sem lentu í skjálftanum verði komið til hjálpar en staðfest að 61 týndi lífi og fleiri en tvö hundruð slösuðust í hamförunum.

Annars konar hamfarir ógna Mexíkóbúum einnig en fellibylurinn Katia gekk inn á austurströnd landsins í nótt með mikilli rigningu. Fellibylurinn náði mest öðru stigi en er kominn niður í fyrsta stig og kemur til með að breytast í hitabeltisstorm.

Spáð er allt að 350 millimetra úrkomu og hefur verið varað við flóðahættu í norðanverðu landinu. Katia er þriðju og minnsti hitabeltisstormurinn sem geisað hefur á Karíbahafi síðustu daga.

 

 


Tengdar fréttir

Stærsti jarðskjálfti í manna minnum

8,2 stiga jarðskjálfti reið yfir Mexíkó. Skjálftinn er sagður sá stærsti í sögu landsins. Hann fannst í höfuðborginni, þúsund kílómetra frá upptökum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×