Innlent

Gagnrýna að borgin eigi Höfða

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Höfði keppir við aðrar malbikunarstöðvar hérlendis um verkefni fyrir opinbera aðila.
Höfði keppir við aðrar malbikunarstöðvar hérlendis um verkefni fyrir opinbera aðila. vísir/pjetur
Viðskiptaráð Íslands birti í gær samantekt á markaðshlutdeild Malbikunarstöðvarinnar Höfða, sem Reykjavíkurborg á auk þess að skipa í stjórn fyrirtækisins. „Eignarhaldið veldur því að borgin er í samkeppni við einkaaðila um að fá úthlutað verkefnum frá sjálfri sér. Þetta fyrirkomulag virðist hafa hjálpað Höfða í samkeppninni. Markaðshlutdeild Höfða nam þannig 24% í útboðum Vegagerðarinnar en 73% í útboðum Reykjavíkurborgar á árunum 2008–2016, sé miðað við fjölda samþykktra útboða,“ segir meðal annars í samantektinni.

Eignarhald Reykjavíkurborgar á Höfða hefur verið rökstutt með þeim hætti að fákeppni ríki á þessum markaði. „Rökstuðningur þessi stenst ekki nánari skoðun,“ segir orðrétt.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2015 námu tekjur fyrirtækisins 1,7 milljörðum króna og hagnaður ríflega 100 milljónum króna. Heildareignir voru rúmur milljarður króna. Ef rekstur fyrirtækisins verður erfiður getur komið til þess að þessi verðmæti þurrkist út, með tilheyrandi tjóni fyrir skattgreiðendur.

Borgin hefur lengi verið eitt skuld­settasta sveitarfélag landsins og skuldaði yfir 300 milljarða króna samkvæmt ársreikningi 2015. „Það ætti því að vera forgangsmál hjá borginni að losa um óþarfa bindingu á fjármunum og nota afraksturinn til niðurgreiðslu skulda,“ segir í samantektinni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×