Fátt hefur verið meira rætt í knattspyrnuheiminum síðasta sólarhringinn en fjögurra leikja bannið sem Lionel Messi var dæmdur í fyrir orðaskipti sín við aðstoðardómara leiks Argentínu og Síle í undankeppni HM.
Messi fékk hvorki gult né rautt spjald fyrir það sem hann lét út úr sér við aðstoðardómarann á meðan leiknum stóð en var síðan dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir móðgandi og særandi orð sem hann átti að hafa sagt í þessum samskiptum sínum við aðstoðardómarann á hliðarlínunni.
Lionel Messi skoraði eina mark leiksins á móti Síle með marki úr vítaspyrnu. Hann er einn allra besti knattspyrnumaður heims og ekki þekktur fyrir mikinn ruddaskap innan vallar. Dómurinn var engu að síður mjög strangur.
Margir í kringum Messi hafa fordæmt þetta bann en það sá til þess að Messi gat ekki spilað á móti Bólivíu í fyrrakvöld þar sem argentínska landsliðið tapaði 2-0.
Lionel Messi sendi frá sér stutta yfirlýsingu í gær en það var argentínska blaðið La Nacion sem birti hana.
„Ég var aldrei að segja þetta við aðstoðardómarann heldur var ég að tala við loftið,“ sagði Lionel Messi í yfirlýsingu sinni.
Argentínumenn hafa brugðist mjög illa við þessum dómi og hafa þegar áfrýjað honum. Þetta eru nefnilega mjög slæmar fréttir fyrir argentínska landsliðið sem hefur unnið 5 af 6 leikjum sínum og fengið 15 af 18 mögulegum stigum í undankeppninni með Messi en aðeins unnið 1 af 8 leikjum sínum og fengið bara 7 af 24 mögulegum stigum í leikjunum án hans.
Argentínska landsliðið á fjóra leiki eftir í undankeppninni og mun Messi missa af þremur þeirra. Argentína er dottið niður í fimmta sæti og er nú án Messi í mikilli hættu á að missa af HM í Rússlandi 2018.

