Áður hafði Páll Magnússon, sem einnig er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnt Egil Helgason, annan þáttastjórnanda Silfursins, fyrir að fjalla ekki nóg um sjómannaverkfallið í þættinum á sunnudag.
„Ég er að velta fyrir mér fréttamati fjölmiðla sem oft er svolítið bjagað í mínum huga. Í þætti í ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var fjallað um brennivínsfrumvarpið í 17 mínútur en verkfall sjómanna í tvær eða þrjár. Það fannst mér einkennilegt miðað við mikilvægi málsins, atvinnugreinar sem veltir yfir 300 milljörðum á ári og heldur lífinu í landsbyggðinni. Það fékk þrjár mínútur á móti brennivíninu. Það segir svolítið um matið.“
Ásmundur kvaðst síðan hafa miklar áhyggjur af verkfalli sjómanna og að það væri mikilvægt að sjómenn, útgerðarmenn og stjórnvöld legðu núna spilin á borðið til að ljúka mætti deilunni sem fyrst.
„Hún hefur þegar tekið allt of mikinn toll, ekki bara hjá samfélaginu í heild heldur líka hjá fiskverkunarfólkinu, þjónustuaðilunum og öllum þeim sem vinna við og að sjávarútvegi.“