Everton er komið á gott skrið eftir að Stóri Sam Allardyce tók við liðinu en það er búið að innbyrða tíu stig af tólf mögulegum í síðustu fjórum leikjum og hefur aðeins fengið á sig eitt mark í síðustu fimm.
Gylfi Þór fær hæstu einkunn ásamt varnarmanninum Ashley Williams í einkunnagjöf Liverpool-blaðsins Liverpool Echo. „Kraftmikill eins og alltaf og lagði sig allan fram, bæði í vörn og sókn. Alltaf líklegur til að gefa lykilsendingar,“ segir í umsögn um Gylfa.
„Það gekk ekkert hjá Ronald Koeman að láta Gylfa og Wayne Rooney spila saman, en þeir hafa spilað mun betur eftir komu Sam Allardyce. Í raun var leikurinn í gær líklega sá besti hjá íslenska landsliðsmanninum síðan hann gekk í raðir Everton fyrir metfé í sumar,“ er sagt um Gylfa Þór Sigurðsson.
Gylfi var sjálfur sultuslakur þegar að hann ræddi við fjölmiðla um leikinn og var ekkert að fara fram úr sjálfum sér þrátt fyrir betra gengi upp á síðkastið.
„Auðvitað er andrúmsloftið betra í klefanum þegar að liðið vinnur nokkra leiki og vonandi erum við að snúa genginu við. Við þurfum að byggja á þessu yfir jólavertíðina,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.