Erlent

Katalónar lýsi yfir sjálfstæði strax eftir atkvæðagreiðslu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Katalóníubúar eiga meðal annars sitt eigið tungumál og sinn eigin fána.
Katalóníubúar eiga meðal annars sitt eigið tungumál og sinn eigin fána. Vísir/Getty
Leiðtogar Katalóníu hafa heitið því að lýsa strax yfir sjálfstæði frá Spáni ef sjálfstæði Katalóníubúa verður samþykkt í atkvæðagreiðslu í október.

Aðskilnaðarsinnar héraðsins á norðaustur Spáni hafa í mörg ár fært rök fyrir því að það ætti að vera sjálfstætt frá Spáni. Þeir halda því fram að héraðið, þar sem meðal annars má finna túristaborgina Barcelona, borgi meira til höfuðborgarinnar Madrid en það fái til baka.

Katalónía er eitt af ríkustu héruðum landsins og eiga íbúar þess meðal annars sitt eigið tungumál, katalónsku.

Spurningin sem kjósendur þurfa að svara játandi eða neitandi í október er „Vilt þú að Katalónía verði sjálfstætt lýðveldi?“

Margir vilja líkja atkvæðagreiðslunni við þá sem fram fór í Skotlandi árið 2014 þar sem Skotar kusu gegn því að verða sjálfstæðir frá Bretlandi. Þá studdi breska ríkisstjórnin þó að atkvæðagreiðslan færi fram, en yfirvöld á Spáni vilja enn reyna að koma í veg fyrir að Katalóníubúar fái að kjósa um frelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×