Fótbolti

Fullyrt að Real ætli að kaupa Mbappe á metfé

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar í leik með Monaco.
Kylian Mbappe fagnar í leik með Monaco. Vísir/Getty
Hinn átján ára Kylian Mbappe verður dýrasti leikmaður heims ef marka má frétt spænska blaðsins Marca í dag. Þar er fullyrt að Real Madrid hafi komist að samkomulagi við Monaco um kaupverð.

Samkvæmt fréttinni verður kaupverðið 180 milljónir evra, jafnvirði 22 milljarða króna. Real Madrid myndi greiða 160 milljónir í fyrstu en afgangurinn yrði bundinn við frammistöðu Mbappe með Real.

Mbappe yrði þar með dýrasti leikmaður heims og myndi slá við Paul Pogba sem kostaði 105 milljónir evra þegar Manchester United keypti hann frá Juventus.

Þá hafa verið sögusagnir á kreiki um að Brasilíumaðurinn Neymar sé á leið til PSG í Frakklandi fyrir 222 milljónir evra.

Marca fullyrðir að Zinedine Zidane hafi lagt blessun sína yfir kaupin á Mbappe eftir fund með Florentino Perez, forseta Real, og framkvæmdastjóranum Jose Angel Sanchez í Bandaríkjunum þar sem Real er nú í æfingaferð.

Mbappe kom við sögu í 44 leikjum með franska liðinu Monaco á síðustu leiktíð og skoraði í þeim 26 mörk. Monaco varð þá franskur meistari og komst í undnaúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Uppfært 13.00: Forráðamenn AS Monaco hafa neitað þessum fregnum í samtali við fréttavef Sky Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×