Innlent

Telur fornsögurnar sannar um landnámstíma Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar

Þýskur fornleifafræðingur telur ítarlegar aldursgreiningar elstu minja á Íslandi staðfesta frásagnir fornsagna um að landið hafi fyrst verið numið á árunum eftir 870. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Landnemarnir. Fornleifar sem fundust síðastliðið sumar í Stöðvarfirði eru raunar nýjasta dæmið um mannvirki sem einhver virðist hafa reist löngu áður en Ingólfur Arnarson á að hafa numið Ísland fyrstur manna. Sú niðurstaða Margrétar Hermanns Auðardóttur fyrir 35 árum, að fyrsti bóndinn í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum hefði byggt bæ sinn um 150 árum á undan Ingólfi, reyndist olía á eld viðvarandi deilna um hvort landnámssagan sé rétt. Og þetta er einmitt doktorsverkefni fornleifafræðingsins Magdalenu Schmid; að grandskoða allar aldursgreiningar landnámstímans, en þær eru yfir 300 talsins. „Ef maður skoðar öll gögnin, eins og ég geri í rannsókn minni, - því stundum er auðvelt að draga ályktun frá einu sýnishorni, - en þegar öll myndin er skoðuð segja gögnin okkur að þetta hafi ekki átt sér stað fyrir árið 870,“ segir Magdalena Schmid. Hún viðurkennir að vegghleðslan í Aðalstræti sé dæmi um mannvirki frá því áður en landnámsaskan féll.

Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Orri Vésteinsson prófessor, sem er leiðbeinandi hennar, telur aðalniðurstöðuna þá hve mikil og traust gögn séu til um landnámið. „Það er búið að gera alveg gríðarlega margar greiningar. Það er búið að fara á marga staði, grafa þá upp, og safna miklum heimildum,“ segir Orri. Yfirgnæfandi hluti þeirra bendi til að landnám hefjist eftir að landnámsgjóskulagið féll. Tveir staðir, Reykjavík og Húshólmi við Krýsuvík, sýni mannvist undir gjóskunni en yfir 300 staðir sýni elstu mannvist rétt ofan á gjóskulaginu.„Þetta sýnir okkur það auðvitað að fólk er komið hingað fyrir 870 en landnámið sjálft hefst ekki fyrr en eitthvað eftir þann tíma,“ segir Orri. Niðurstaða Magdalenu Schmid er að fornleifarnar styðji frásagnir fornsagna af landnáminu. „Í sögunum er sagt að Ísland hafi verið numið á 60 vetrum og að fólk hafi komið árið 870 eða 874. Tímasetningin er mjög nákvæm, og þótt við vitum nú að fólk hafi komið aðeins fyrr, er talað um landnám, - og það stenst, - því það átti sér stað eftir 870. Þannig að sögurnar eru sannar,“ segir Magdalena.


Tengdar fréttir

Ísland numið á árunum 700 til 750

Margrét Hermanns Auðardóttir segir bæði fornleifarannsóknir og frjógreiningar hafa staðfest að Ísland var numið mun fyrr en opinberlega er viðurkennt. Hún telur tregðu sagnfræðinga um að kenna að Íslandssagan sé ekki endurskrifuð.

Kallar á endurskoðun á sögu landnáms

Með nýrri tölvuúrvinnslu á gögnum um gjóskulög telur Páll Theódórsson eðlisfræðingur hægt að tímasetja mannvistarleifar með nákvæmari hætti en áður. Ljóst sé að landnám hafi hafist hér fyrr en áður hefur verið talið. Segir stöðnun ríkja í tímatali landnáms.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.