Á Þjóðminjasafninu er landnámslagið kynnt sem helsta viðmiðið um hvenær Ísland byggðist og þegar ártalið 871, plús mínus tvö ár, fékkst úr Grænlandsjökli fyrir tuttugum árum var það sett á sýninguna í Aðalstræti. Þegar svo torfveggur fannst í Aðalstræti undir landnámsöskulaginu ályktuðu menn að landnámsártalið 874 gæti ekki staðist því Ingólfur Arnarson hlyti þá annaðhvort að hafa verið fyrr á ferðinni eða einhver komið á undan honum.
Í fyrirlestri í Háskóla Íslands í gær, og í Fornleifastofnun Íslands í dag, kynnti þýskur fornleifafræðingur, Magdalena Schmid, doktorsverkefni um aldursákvarðanir landnámsins þar sem fram kom að með nýjum ískjörnum úr Grænlandsjökli í fyrra er búið að leiðrétta ártalið. Ný aldursgreining er 877 plús mínus eitt ár, eða sex árum yngra, segir Magdalena í viðtali við Stöð 2.
Það er eldra öskulag í jöklinum, sem menn misstúlkuðu úr Vesúvíusi, sem kallar á endurmat. Það gjóskulag var ranglega greint úr hinu sögufrægu eldgosi Vesúvíusar árið 79, sem kaffærði Pompei, en er nú talið úr öðru eldgosi og sex árum yngra. Þar af leiðandi þurfti að endurstilla öll önnur gjóskulög um sex ár.

„Og þetta á eftir að breytast. Einhver annar á eftir að gera aðrar nákvæmnismælingar eftir nokkur ár og komast að því að við erum að tala um 873, eða 875 eða 878,“ segir Orri.
En verður nafni landnámssýningarinnar breytt í ljósi þessara nýju upplýsinga?
„Það getur vel hugsast. Við tökum náttúrlega öllum nýjum upplýsingum fagnandi því þetta er lifandi vettvangur sem við störfum á,“ segir Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur.
„Þannig að við erum alltaf viðbúin því að þurfa að aðlaga okkur nýjum upplýsingum. Og það er ekkert ólíklegt að við tökum þetta inn í myndina líka.“

En þýðir þetta við getum haldið okkur við söguna um að Ingólfur hafi numið land árið 874?
„Ef þú leggur þá merkingu í þær heimildir, sem til eru um hann, að hann hafi verið kominn 874. En það er bara ekki heimilt. Það er ekki hægt að túlka þessar heimildir með slíkri nákvæmni, “ svarar Orri.
- En styrkir þetta sögnina um Ingólf?
„Nei, þetta hefur enga þýðingu fyrir hann.“