Erlent

Varð fyrir bíl inni í stofu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í York í dag. Mikil mildi þykir að enginn hafi látist í slysinu.
Frá vettvangi í York í dag. Mikil mildi þykir að enginn hafi látist í slysinu. Skjáskot/BBC
Fjórir særðust, þar á meðal maður sem sat í sófa inni á heimili sínu, þegar bíl var keyrt í gegnum vegg íbúðarhúss í bresku borginni York í dag, að því er segir í frétt Sky News.

Bílnum var keyrt í gegnum vegg hússins snemma á sunnudagsmorgun. Þá kviknaði auk þess í bílnum við áreksturinn. Myndir af atvikinu, þar sem bíllinn sést hálfur inni í húsinu, hafa vakið mikla athygli á vefnum í dag.

Fjölskyldan, sem er til heimilis í téðu húsi, var heima við þegar bíllinn hafnaði inni hjá þeim. Fjölskyldufaðirinn sat í sófa inni í húsinu og varð fyrir bílnum en hann hlaut alvarlega áverka á neðri hluta líkamans og var fluttur á sjúkrahús.

Eiginkonu mannsins og barni þeirra varð ekki meint af slysinu. Lögreglustjóri á svæðinu sagði ótrúlegt að enginn skyldi hafa týnt lífi í árekstrinum, að því er segir í frétt BBC.

Þrír voru inni í bílnum, sem var af gerðinni Volkswagen Golf, og hlutu þeir höfuðáverka við áreksturinn. Ökumaður bílsins, sem talinn er um tvítugt, var handtekinn. Eldur kviknaði jafnframt í bílnum, og barst í innviði hússins, en slökkvilið náði að lokum niðurlögum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×