Fundi þjóðaröryggisráðs lauk nú á sjötta tímanum en ráðið kom saman til fundar klukkan tvö í dag á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, fyrrum umráðasvæði bandaríska varnarliðsins á Miðnesheiði.
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að ráðið hafi farið yfir ýmis mál sem tengjast almennt öryggisvörnum landsins í nútíð og framtíð.
Sjá einnig: Fyllsta öryggis gætt á fundi þjóðaröryggisráðs
„Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gerði grein fyrir vinnu við netöryggismál, utanríkisráðherra kynnti vinnu við gerð viðbúnaðar- og varnaráætlunar fyrir Ísland og Ríkislögreglustjóri kynnti vinnu varðandi hryðjuverkaógn í ljósi atburða í mörgum löndum á undanförnum misserum og árum,“ segir í tilkynningunni.
Þá var gengið frá skipun Þórunnar J. Hafstein í embætti ritara ráðsins en hún hefur starfað sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu. Hún mun nú hefja störf fyrir forsætisráðuneytið.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, er formaður ráðsins og stýrir fundum þess en alls sitja 11 fulltrúar í ráðinu. Utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja eiga sæti í ráðinu auk tveggja þingmanna, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi en hinn er úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar.
Fundur þjóðaröryggisráðs stóð í tæpa fjóra tíma

Tengdar fréttir

Hanna Katrín segir lögregluna mega þola háð og spott
Þingflokksformaður Viðreisnar segir lögregluna eiga betra skilið.

Viðbúnaður lögreglu óvenju mikill vegna forsögu króatískra stuðningsmanna
Lögreglan hefur handtekið nokkra stuðningsmenn króatíska landsliðsins það sem af er degi.

Vopnaðir sérsveitarmenn í Color Run
Sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra gengu um vopnaðir skotvopnum í miðbæ Reykjavíkur í dag meðan að fjölskylduhátíðin Color Run fór fram.