Svo gæti farið að Þjóðverji stýri enska landsliðinu en Jürgen Klinsmann er sagður vera á lista enska knattspyrnusambandsins sem leitar nú að nýjum þjálfara.
Roy Hodgson sagði af sér eftir tap Englands gegn Íslandi á EM.
Klinsmann er að þjálfa bandaríska landsliðið og það samstarf hefur ekki alltaf gengið vel. Hann var sagður vera einum leik frá því að vera rekinn á Copa America. Liðið endaði síðan með því að slá í gegn og fara alla leið í undanúrslit.
Breska blaðið Daily Telegraph heldur því fram að Klinsmann sé einn af þeim sem enska knattspyrnusambandið sé að skoða.
Aðrir sem sagðir eru vera á listanum eru meðal annars Laurent Blanc, Slaven Bilic og Claudio Ranieri.
Sam Allardyce er efstur á lista yfir enska þjálfara en líklegt er talið að Englendingar ráði útlending í starfið.
Englendingar hafa áhuga á Klinsmann
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
