Lífið

Svarthöfði snýr aftur

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Svarthöfði, alltaf í stuði... steindauður.
Svarthöfði, alltaf í stuði... steindauður. Vísir/Getty
Ef það eru myrk tíðindi að Bretar séu að yfirgefa Evrópusambandið þá hljóta það að vera gleðitíðindi að Svarthöfði sé að snúa aftur í Stjörnustríð.

Myrkrahöfðinginn sjálfur kemur fram í kvikmyndinni Rouge One: A Star Wars Saga. Eins og flestir vita er þar um hliðarsögu úr Stjörnustríðsheiminum að ræða, þá fyrstu af nokkrum sem Disney fyrirtækið ætlar að framleiða.

Leikarinn James Earl Jones hefur verið ráðinn til þess að ljá  Svarthöfða rödd sína eins og hann hefur gert í þeim fjórum Stjörnustríðsmyndum þar sem Anakin Skywalker hefur verið í búningnum.

Svarthöfði kemur þó ekki fram í mörgum atriðum myndarinnar og hefur víst það hlutverk helst að gera hinu illmenni myndarinnar lífið leitt. Þar er kynnt til sögunnar ný persóna sem heitir Director Orson Krennic sem leikinn verður af Ben Mendelsohn.

Eitt af nokkrum atriðum úr væntanlegri Stjörnustríðsmynd sem tekin voru hér.Vísir/Disney
Stund á milli stjörnustríða

Rouge One gerist á milli kafla III og IV eða stuttu áður en táningsdrengurinn Logi Geimgengill ratar inn í söguþráðinn. Myndin fjallar einmitt um þá uppreisnarmenn sem stálu teikningunum á fyrri Dauðastjörnunni sem Logi svo sprengdi í loft upp í lok fjórða kafla.

Myndin var skotin að hluta til hér á Íslandi en hún er væntanleg í bíó um allan heim í lok árs.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr myndinni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×