Oft hefur stjórnarmyndun þó tekið mun lengri tíma.

Lengsta stjórnarmyndun lýðveldissögunnar hér á landi tók 117 daga.
Kosið var þann 30. júní 1946 og var ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, samsteypustjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, mynduð þann 4. febrúar 1947.

Hollendingar áttu Evrópumet í stjórnarkreppum frá árinu 1977.
Kosið var til þings þann 25. maí og tók 208 daga að mynda nýja ríkisstjórn.
Náðist þá samkomulag á milli Kristilegra demókrata og Frelsis- og lýðræðisflokksins um að mynda saman ríkisstjórn.
1978 - Ísland - 68 dagar
Erfiðlega tókst að mynda ríkisstjórn árið 1978.
Kosið var þann 25. júní og myndaði Ólafur Jóhannesson ríkisstjórn 1. september sama ár, 68 dögum seinna, með Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki.
Sú stjórn sprakk þó, meðal annars vegna deilna um efnahagsmál, og var kosið aftur ári síðar.

Kosningarnar í kjölfar þess að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sprakk urðu ekki til þess að leysa úr flækjuástandi í íslenskum stjórnmálum.
Kosið var þann 3. desember 1979 og náði Gunnar Thoroddsen að mynda ríkisstjórn 67 dögum seinna, eða þann 8. febrúar árið 1980.
Var stjórnin mynduð með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi.
Gunnar var hins vegar ekki formaður og myndaði hann stjórnina í óþökk formannsins, Geirs Hallgrímssonar.
Fylgdi einungis brot Sjálfstæðismanna Gunnari í ríkisstjórn.

Nýlegasta dæmið um langa stjórnarkreppu hér á landi var eftir kosningarnar 25. apríl 1987.
Þá tók 74 daga að mynda ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem stóð saman af Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.
Sú stjórn lifði þó einungis í rúmt ár.
2010 - Írak - 264 dagar
Stuttu áður en Belgar settu heimsmet í stjórnarkreppu settu Írakar met sitt. Vörðu þeir 264 dögum í stjórnarkreppu. Var þá mynduð ríkisstjórn undir forystu Nouri al-Maliki.
Ein helsta ástæðan fyrir langri stjórnarkreppu er talin vera sú að fjölmargir leiðtogar höfðu útilokað að vinna með ákveðnum flokkum.

Eftir þingkosningar í Belgíu þann 13. júní 2010 tók við lengsta tímabil án kjörinnar ríkisstjórnar sem nokkurt þróað land hefur gengið í gegnum.
Þegar stjórnarmyndun tókst loksins, þann 6. desember 2011, höfðu liðið 542 dagar frá því kosið var.
Ein helsta ástæðan fyrir stjórnarkreppunni var ágreiningur á milli Flæmingja og Vallóna.
Áður höfðu Belgar verið í langri stjórnarkreppu árin 2007 til 2008, þá 196 daga.

Spánverjar eru nýkomnir úr langri stjórnarkreppu.
Eftir kosningar þann 21. desember 2015 tókst ekki að mynda ríkisstjórn og ákveðið var að blása aftur til kosninga þann 27. júní síðastliðinn.
Niðurstöður kosninganna voru hins vegar svipaðar þeim fyrri og náðu flokkar ekki saman fyrr en 29. október síðastliðinn.
Þá voru liðnir 314 dagar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu