Fótbolti

Malmö býður í Viðar Örn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn Kjartansson er líklega á förum frá Kína.
Viðar Örn Kjartansson er líklega á förum frá Kína. vísir/epa
Sænska úrvalsdeildarliðið Malmö hefur lagt fram kauptilboð í landsliðsframherjann Viðar Örn Kjartansson, að því fram kemur í frétt á vef sænska dagblaðsins Expressen. Selfyssingurinn var í morgun orðaður við danska félagið AGF. Það má lesa meira um það hér.

Viðar er samningsbundinn kínverska félaginu Jiangsu Sainty í eitt ár til viðbótar, en hann er talinn á leið frá félaginu.

Expressen fullyrðir að Malmö sé búið að gera Kínverjunum tilboð í Viðar Örn, en umboðsmaður hans, Ólafur Garðarsson, vildi ekkert staðfesta við blaðið. „Það eru félög í Svíþjóð sem hafa áhuga en meira segi ég ekki að svo stöddu,“ segir Ólafur.

Malmö ætlar sér, samkvæmt frétt Expressen, að kaupa tvo framherja til að bólstra sóknarleik sinn. Sænski framherjinn Gustaf Nilsson hafnaði tilboði Malmö á dögunum og fór frá Falkenberg til Bröndby í Danmörku.

Viðar þekkir það að spila á Norðurlöndum, en hann varð markakóngur í norsku úrvalsdeildinni árið 2014 þegar hann skoraði 25 mörk í 29 leikjum.

Selfyssingurinn, sem komst fyrir alvöru til metorða hjá Fylki í Pepsi-deildinni 2013, skoraði níu mörk í 22 leikjum fyrir Jiangsu Sainty á síðustu leiktíð og varð bikarmeistari.

Með Malmö spilar landsliðsmiðvörðurinn Kári Árnason. Malmö er í dag eitt allra stærsta liðið á Norðurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×