Arnór Ingvi Traustason var á skotskónum fyrir Norrköping sem vann 4-0 sigur á Östersunds FK í riðlakeppni sænska bikarsins í dag.
Arnór Ingvi skoraði fyrsta mark sænsku meistaranna áður en þeir Nikals Barkröth og Emir Kujovic bættu við mörkum. Enarsson bætti svo við fjórða markinu í uppbótartíma.
Keflvíkingurinn var í byrjunarliði Norrköping, en í Östersund stóð markvörðurinn Haraldur Björnsson vaktina. Hann þurfti að hirða boltann fjórum sinnum úr markinu.
Fjögur lið eru í hverjum riðli og fer svo efsta liðið í hverjum riðli áfram í átta liða úrslit keppninnar og svo koll af kolli.
Annað Íslendingarlið, Helsinborg, var einnig í eldlínunni, en það vann 3-1 sigur á GAIS í sínum riðli. Enginn Íslendingur kom þar við sögu.
