Færeyski landsliðsmaðurinn Jónas Tór Næs hefur skrifað undir tveggja ára samning við ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net í dag.
Kristján þekkir vel til Jónasar en hann fékk hann til Vals 2011. Jónas lék í þrjú ár með Val, alls 51 leik í Pepsi-deildinni og skoraði eitt mark.
Jónas, sem varð þrítugur í gær, hefur leikið í heimalandinu frá því hann yfirgaf Val. Hann á að baki 48 landsleiki fyrir Færeyjar.
Jónas er annar Færeyingurinn sem Kristján nær í en í nóvember samdi Kaj Leó í Bartalsstovu við ÍBV. Hann lék með FH seinni hluta síðasta tímabils.
