Enski boltinn

Logi sér Gylfa fyrir sér hjá Liverpool eða Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson. Þarf hann að hugsa um næstu skref í janúar?
Gylfi Þór Sigurðsson. Þarf hann að hugsa um næstu skref í janúar? Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City eru ekki í alltof góðum málum í ensku úrvalsdeildinni og mikið þarf að breytast ef liðið ætlar ekki að falla úr deildinni í vor.

Góð frammistaða Gylfa hélt liðinu í deildinni á síðasta tímabili en nú er liðið í fallsæti þrátt fyrir að íslenski landsliðsmaðurinn hafi þegar komið að tíu mörkum með því að skora eða gefa stoðsendingu.

Guðmundur Hilmarsson veltir fyrir sér þeirri spurningu í Morgunblaðinu í dag hvort að Gylfi eigi að yfirgefa Swansea en það er ljóst að það hafa mörg sterk áhuga á honum eftir góða frammistöðu að undanförnu.

Guðmundur fór yfir næstu framtíð Gylfa með þremur knattspyrnuspekingum eða þeim Guðmundi Benediktssyni, Loga Ólafssyni og Tryggva Guðmundssyni.

Guðmundur Benediktsson segir að það verði slegist um Gylfa í sumar en að enginn innan félagsins muni þora að samþykkja sölu á Gylfa. „Eins og leikmannahópurinn er hjá Swansea í dag þá er enginn annar en Gylfi sem getur bjargað því frá því að fara niður,“ segir Guðmundur meðal annars í viðtalinu en Tryggvi Guðmundsson er hins vegar svartsýnn á að Gylfi geti spilað með stærra liði.

„Hann er betri sem stór fiskur í lítilli tjörn og ef ég væri hann myndi ég taka slaginn með Swansea, klára tímabilið og gera allt sem ég gæti til þess að halda liðinu uppi,“ sagði Tryggvi meðal annars í viðtalinu við Guðmund í Morgunblaðinu. 

Logi Ólafsson segir það skipta miklu máli hvað Swansea liðið ætli að gera á leikmannamarkaðnum í janúar. Gylfi þurfi að fá það á hreint áður en hann ákveður um hvort hann vilji fara.

„Gylfi hefur sýnt og sannað að hann hefur alla burði til að komast í betra lið. Hann átti kannski aldrei að fara frá Tottenham eins og forráðamenn liðsins hafa nú sagt. Ég gæti vel séð hann fyrir mér í því liðið og jafnvel í liði eins og Liverpool," sagði Logi meðal annars í viðtalinu við Morgunblaðið.

Guðmundur Hilmarsson og knattspyrnuspekingarnir þrír fara betur yfir stöðu og framtíð Gylfa í Morgunblaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×