Innlent

Sál­fræðingur telur PISA-prófið gallað vegna hugtakaruglings

Sveinn Arnarsson skrifar
PISA-prófið þreyta grunnskólabörn og eru niðurstöður notaðar til að greina menntakerfi OECD-landanna.
PISA-prófið þreyta grunnskólabörn og eru niðurstöður notaðar til að greina menntakerfi OECD-landanna. vísir/stefán

Vafi leikur á að þýðingar á PISA-prófinu séu það góðar að hægt sé að bera niðurstöður íslenskra skólabarna saman við skólabörn annars staðar innan OECD-landa. Þetta er mat Ásdísar Bergþórsdóttur sálfræðings á þýðingum PISA-prófsins út frá þýðingar­ramma OECD um það hvernig prófið eigi að vera uppsett.



„Við getum ekki fullyrt um hvaða afleiðingar það hefur, við vitum ekki hvort þetta er búið að vera svona lengi. Ég skoðaði prófið ekki orð fyrir orð enda tæki það mun lengri tíma,“ segir Ásdís.



„Hins vegar get ég sagt að setningabyggingin er að einhverju leyti flóknari hér en annars staðar og að einhverju leyti verður ruglingur þar sem hugtökum er ekki haldið aðskildum á íslensku en það er gert í enska textanum. Þýðingarrammi PISA kveður á um að þýðendur skuli halda texta á sama erfiðleikastigi en það er ekki gert að öllu leyti nú.“



Að mati Ásdísar þarf að kafa betur ofan í það hvaða áhrif þetta gæti haft. Tveir einstaklingar eru fengnir til að þýða textann og sá þriðji ráðinn til að samhæfa þýðingarnar. Að því loknu er fjórði aðilinn fenginn frá PISA til að skoða hvort þýðingin falli að markmiðum PISA.

„Þetta er eitthvað sem eftirlitsaðili PISA verður að taka afstöðu til. Það eru þeir sem bera ábyrgð á prófinu að lokum,“ segir Ásdís.



Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, sem stýrði PISA-próftökunni hér á landi, segist fagna því að þýðingin sé skoðuð ofan í kjölinn.



„Við höfum líka velt fyrir okkur að senda þetta til OECD og láta þá fara gaumgæfilega yfir þetta. Ég hef skoðað álit Ásdísar og ég sé ekki í fljótu bragði neitt sem dregur úr réttmæti prófsins,“ segir Arnór.



Arnór telur útkomu PISA-prófsins nægilega réttmæta til þess að bera hana saman við aðrar þjóðir. „Til að mynda höfum við aðrar rannsóknir hér á landi sem við berum ábyrgð á sem eru að sýna sömu þróunina. Sú vissa skýtur stoðum undir réttmæti PISA-prófsins.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Vilja bæta stöðu nemenda í PISA

"Niðurstöðurnar úr PISA eru sláandi og mikið áhyggjuefni,“ sagði Marta Guðjónsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks á borgarstjórnarfundi í gær.

PISA-könnun: Hrikalegar tölur og verra á landsbyggðinni

Íslendingar eru á niðurleið á öllum sviðum samkvæmt nýrri PISA-rannsókn. Kynjamunur er ekki marktækur nema hvað varðar lesskilning. Landsbyggðin stendur verr en höfuðborgarsvæðið á öllum sviðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×