Innlent

Vilja bæta stöðu nemenda í PISA

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Í borgarstjórn.
Í borgarstjórn. vísir/stefán
„Niðurstöðurnar úr PISA eru sláandi og mikið áhyggjuefni,“ sagði Marta Guðjónsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks á borgarstjórnarfundi í gær.

„Til að bæta stöðu reykvískra nemenda í PISA-könnuninni verði efnt til víðtæks samstarfs og greiningarvinnu til að styrkja kennsluhætti í þeim þremur námsgreinum sem könnunin nær til. Í því skyni verði hafnar viðræður við menntamálaráðuneytið, menntastofnanir sem sinna rannsóknum á þessu sviði sem og alla hagsmunaaðila skólasamfélagsins; kennara, skólastjórnendur, foreldra og foreldrasamtök um leiðir til úrbóta,“ segir í tillögunni sem vísað var til umfjöllunar í skóla- og frístundaráði.

„Við verðum að taka þessar niðurstöður alvarlega og bregðast strax við og fara í úrbætur í stað þess að vísa henni í ráð og nefndir eins og meirihlutinn leggur til að gert verði með þessa tillögu okkar. Við eigum ekki að sætta okkur við að íslenskir nemendur séu heilu skólaári á eftir jafnöldrum sínum í þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ sagði Marta Guðjónsdóttir sem kvaðst telja að með sameiginlegu átaki allra sem sinna menntamálum og kennslu og með samvinnu nemenda og foreldra megi bæta frammistöðuna.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

 

ATH. Fréttinni hefur verið breytt. Í upphaflegri útgáfu var það sem haft er eftir Mörtu Guðjónsdóttur af borgarstjórnarfundinum sagt vera bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn. Beðist er velvirðingar á þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×