Erlent

Trump „trúir ekki“ ásökunum um afskipti Rússa af forsetakosningunum og segir þær „fáránlegar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, tilvonandi forseti Bandaríkjanna, hefur enga trú á því að fregnir af því að Rússar hafi beitt sér í forsetakosningunum í Bandaríkjunum með það að markmiði að koma honum til valda. BBC greinir frá.

Í viðtali við Fox News, sem birt verður síðar, sagði Trump að ásakanirnar væru „fáránlegar“. Á föstudaginn greindi Washington Post frá því að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefði komist að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld hafi skipst sér af forsetakosningunum í Bandaríkjunum til að hjálpa Donald Trump að sigra í kosningunum.

Samkvæmt leyniskýrslunni hefur CIA borið kennsl á einstaklinga með tengsl við ríkisstjórn Rússlands sem létu uppljóstrarasíðunni Wikileaks í té þúsundir tölvupósta frá landstjórn Demókrataflokksins. Heimildarmenn blaðsins fullyrða að þessir einstaklingar hafi unnið að stærri aðgerðaáætlun sem hafði það að markmiði að hjálpa Trump og skaða Hillary Clinton í kosningabaráttunni.

Rússnesk yfirvöld hafa alfarið hafnað slíkum ásökunum en háttsettir þingmenn, úr röðum Demókrata og Repúblikana, hafa nú kallað eftir því að málið verði rannsakað ítarlega.

John McCain, einn virtasti öldungardeildarþingmaður Repúblikana og Demókratinn Chuck Shamer gáfu út yfirlýsingu þess efnis að skýrsla CIA ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir alla Bandaríkjamenn.


Tengdar fréttir

Teymi Trump hafnar ásökunum CIA um aðkomu Rússa

Umbreytingateymi Donald Trump hafnar ásökunum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, sem halda því fram að rússnesk stjórnvöld hafi skipt sér af forsetakosningunum í Bandaríkjunum til að hjálpa Donald Trump að sigra í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×