Erlent

Trump kærir sig ekki um að kínversk stjórnvöld segi sér fyrir verkum

Anton Egilsson skrifar
Donald Trump tekur við völdum í Hvíta húsinu þann 20. janúar næstkomandi.
Donald Trump tekur við völdum í Hvíta húsinu þann 20. janúar næstkomandi. Vísir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, segist ekki vita afhverju Bandaríkin þurfi að halda sig við „Eitt Kína“-stefnuna sem tekin var upp árið 1972. Þá segist hann ekki vilja láta kínversk stjórnvöld segja sér fyrir verkum. CNN greinir frá.

„Ég skil fullvel „Eitt Kína“-stefnuna en ég veit ekki afhverju við ættum að vera bundin við hana” sagði Trump í viðtali á Fox News í kvöld.

Þessi ummæli lætur Trump falla stuttu eftir að umdeilt símtal hans og Tsai Ing-wen, forseta Taívans, fór fram en kínverskum stjórnvöldum mislíkaði símtalið mjög. Var það í fyrsta sinn sem forseti eða verðandi forseti Bandaríkjanna ræddi beint við leiðtoga Taívan frá árinu 1979.

Kínversk stjórnvöld sendu bandarískum yfirvöldum í kjölfarið formlega kvörtun þar sem farið var þess á leit að Bandaríkin héldu sig við stefnu sína í málefnum ríkjanna, sem gengur undir nafninu „Eitt Kína.“ Kína viðurkennir ekki sjálfstæði eyríkisins Taívan og samkvæmt „Eitt Kína.“ stefnunni hafa Bandaríkin gengist við því sama. 

Trump segist þá ekki skilja hvernig önnur þjóð geti sagt að hann megi ekki taka símtal. Vísar hann þar í símtalið milli hans og forseta Taívans.

„Ég vil ekki að Kínversk stjórnvöld stjórni mér, Þetta símtal kom til mín, það var stutt en mjög almennilegt. Afhverju ætti önnur þjóð að geta sagt að ég megi ekki taka símtal?”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×