Innlent

Bræðurnir neita að hafa skotið úr byssunni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Seinni ákæran, sem varðar stórfellda líkamsárás, var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Seinni ákæran, sem varðar stórfellda líkamsárás, var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. vísir/eyþór/anton
Tveir bræður sem ákærðir eru fyrir stórfellda líkamsárás og ólögmæta nauðung í Breiðholti í mars og júní neituðu sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Bræðurnir sæta einnig ákæru vegna skotárásarinnar í Fellahverfi í Breiðholti í ágúst síðastliðnum og hafa jafnframt neitað sök í því máli.

Um er að ræða tvær ákærur. Önnur þeirra varðar líkamsárás sem átti sér stað við Leifasjoppu við Iðufell í mars; á sama stað og skotárásin. Bræðurnir eru sakaðir um að hafa lamið mann ítrekað í höfuðið með kylfu og spýtu og öðrum þeirra er gefið að sök að hafa skvett vatnsblönduðu ammóníaki í andlitið á manninum. Maðurinn hlaut mar á hálsi og höfði og ætingu á augnloki og augnsvæði.

Þá eru þeir sakaðir um að hafa í júlí hótað manni til þess að aka bíl sínum á tiltekinn stað á höfuðborgarsvæðinu vegna deilna um bifreiðaviðskipti. Báðir neituðu þeir þessum liðum ákærunnar.

Hin ákæran er vegna skotárásarinnar 5. ágúst síðastliðinn, en málin tvö voru sameinuð og verða tekin fyrir í byrjun næsta árs. Þar er eldri bróðirinn sakaður um að hafa stofnað lífi og heilsu pars í hættu, og annarra vegfarenda í stórfelldan háska með því að skjóta úr afsagaðri haglabyssu á almannafæri. Sá yngri er ákærður fyrir tilraun til manndráps, og fyrir hættubrot og vopnalagabrot með því að hafa beint haglabyssunni að bíl sem fyrrnefnt par sat í.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×