Innlent

600 milljónum varið í uppbyggingu á Hveravöllum

Sveinn Arnarsson skrifar
Fyrirhuguð bygging á að falla vel að umhverfinu á hálendinu.
Fyrirhuguð bygging á að falla vel að umhverfinu á hálendinu.
Áætlað er að uppbygging ferðaþjónustu á Hveravöllum muni í heildina kosta um 600 milljónir króna. Fyrirtækið Allrahanda áformar gríðarlega uppbyggingu á næstu árum í samvinnu við Húnavatnshrepp til að sinna ferðaþjónustu á hálendinu.

Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Greyline, segir að allt frá því fyrirtækið kom inn í rekstur Hveravalla fyrir nokkrum árum, hafi það varið um eitt hundrað milljónum í uppbyggingu á svæðinu, allt frá salernis­aðstöðu og neysluvatnskerfi til uppbyggingar á fjarskiptum í samvinnu við símafyrirtækin.

Þórir Garðarsson, markaðsstjóri Grayline
„Við sjáum mikinn fjölda gesta koma á Hveravelli á hverju ári og þjónustan á staðnum er ekki einskorðuð við sumarmánuðina. Þjónustan er notuð allt árið.“ segir Þórir. „Til að hægt sé að taka við gestum og bjóða þeim upp á góða þjónustu þarf að ráðast í miklar endurbætur á byggingum á svæðinu. Við munum því byggja nýtt þjónustuhús á staðnum en hús á staðnum verður fjarlægt á móti.“

Uppbyggingin mun fara fram utan friðlands og núverandi mannvirki sem eru innan friðlandsins, eins og núverandi bílastæði, verða aflögð og grædd upp. Byggt verður upp nýtt bílastæði utan friðlandsins. Þetta er gert að mati Þóris til að vernda friðlandið og náttúrulega ásýnd þess. „Þau hús sem við ætlum að byggja á svæðinu munu síðan falla vel að umhverfinu. Ásýnd svæðisins mun batna við uppbygginguna og við teljum þetta vera til hagsbóta fyrir svæðið í heild sinni,“ segir Þórir. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×