Innlent

Hífa þurfti skyttuna um borð í þyrluna

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Landsbjörg

Hífa þurfti rjúpnaskyttuna sem týndist austur á Héraði upp í þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir að hann fannst í morgun. Maðurinn var með hund með sér í för og var hundurinn fluttur til byggða. Í nótt gróf maðurinn sig og hundinn í fönn til að skýla sér undan vindi, samkvæmt RÚV.

Tveir veiðifélagar mannsins tilkynntu lögreglu að hann hefði ekki skilað sér til byggða um klukkan sjö á föstudagskvöldið. Hann fannst svo klukkan 10:15 í morgun þegar björgunarsveitarmenn á snjósleðum sáu hann á mel í nágrenni við Sauðá.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að aðstæður hafi verið mjög erfiðar og mikið hafi bætt í snjó frá því um miðjan dag á föstudag þar til maðurinn fannst.

Embætti lögreglustjórans á Austurlandi þakkar öllum framangreindum viðbragðsaðilum fyrir framlag þeirra í þessari aðgerð.

Maðurinn var á gangi þegar hann fannst og var mjög kaldur. Björgunarsveitarmenn héldu allan tíman í vonina um að hann hafi verið heill á húfi. Um er að ræða eina umfangsmestu aðgerð seinni tíða á Austurlandi samkvæmt Sveini Oddssyni, formanni svæðisstjórnar Landsbjargar á Austurlandi.

Alls komu um 440 björgunarsveitarmenn að leitinni. Sveinn segir menn vera þreytta eftir erfiða leit, en flestir þeirra hafi hvílst í nótt og farið af stað í morgun, en maðurinn fannst mjög fljótt eftir birtingu. Hann verður fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur í dag.


Tengdar fréttir

Rjúpnaskyttan fannst á lífi

Fannst ásamt hundi sínum við ágæta heilsu eftir að hafa verið týndur í rúman einn og hálfan sólarhring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×