Fótbolti

"Balotelli er ekki jafn klikkaður og ég hélt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Balotelli og Dante eru hluti af spútnikliði Nice sem er á toppnum í frönsku úrvalsdeildinni.
Balotelli og Dante eru hluti af spútnikliði Nice sem er á toppnum í frönsku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Brasilíski varnarmaðurinn Dante bjóst við því að Mario Balotelli, samherji hans hjá Nice, væri mun klikkaðri en hann er í raun og veru.

Balotelli og Dante komu báðir til Nice í sumar. Liðið hefur komið gríðarlega á óvart á þessu tímabili og situr á toppi frönsku deildarinnar, með þriggja stiga forystu á Monaco og Paris Saint-Germain.

Balotelli hefur í gegnum tíðina verið duglegur að koma sér í fréttirnar fyrir ýmis misgáfuleg uppátæki utan vallar. Í vetur hefur hann hins vegar aðallega vakið athygli fyrir góða frammistöðu inni á vellinum.

„Ég hélt hann væri miklu klikkaðri en hann er!“ sagði Dante um Balotelli sem hefur skorað sex mörk í sex deildarleikjum á tímabilinu.

„Hann grínast en ekki það mikið. Hann er ekki egóisti. Hann er mjög áhugasamur um framgang liðsins,“ bætti Dante við.

Brasilíumaðurinn hefur mikið álit á Balotelli sem tók út leikbann þegar Nice bar sigurorð af Saint-Étienne í gær.

„Hann er toppleikmaður. Hann hefur allt. Hann hrífur mig þegar hann er einbeittur og lætur dómara og varnarmenn sem reyna að æsa hann upp ekki trufla sig,“ sagði Dante.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×