Fótbolti

Ólafur Ingi: Mikill heiður að vera fyrirliði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Ingi lék í kvöld sinn fyrsta landsleik í rúmt ár.
Ólafur Ingi lék í kvöld sinn fyrsta landsleik í rúmt ár. vísir/getty
Ólafur Ingi Skúlason bar fyrirliðabandið þegar Ísland vann Möltu með tveimur mörkum gegn engu í vináttulandsleik á Möltu í kvöld. Hann kvaðst nokkuð sáttur með frammistöðu íslenska liðsins.

„Við vorum betri í seinni hálfleik en þeim fyrri sem er skiljanlegt í ljósi þess að við vorum með algjörlega nýtt lið sem hefur ekki spilað saman áður. Við vorum með ágætis tök á þessu. Við vissum að þeir væru með fljóta og hættulega menn í skyndisóknum. Við vorum sterkari í fyrri hálfleik án þess þó að ná reka endahnútinn á sóknirnar. Það vantaði tempó en svo spýttum við í og settum pressu á þá,“ sagði Ólafur Ingi í samtali við Vísi.

Ólafur, sem var að spila sinn fyrsta landsleik í rúmt ár, spilaði fyrstu 70 mínúturnar og stóð fyrir sínu. Hann kvaðst ánægður með hvernig íslenska liðið nýtti föstu leikatriðin í leiknum.

„Við vissum að þeir eru ekki með hávaxið lið á meðan við erum með stærri og sterkari menn og góða spyrnumenn,“ sagði Ólafur en seinna mark Íslands kom eftir hornspyrnu.

Miðjumaðurinn segir að það hafi verið heiður að fá að leiða íslenska liðið út á völlinn.

„Þetta er mikill heiður og draumur hvers íþróttamanns. Ég er stoltur og heilt yfir ánægður með frammistöðuna,“ sagði Ólafur sem lék sinn 27. landsleik í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×