Innlent

Fyrsti kostur Katrínar fjölflokka stjórn á vinstri vængnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá fundi Katrínar Jakobsdóttur og Guðna Th. Jóhannessonar í síðasta mánuði.
Frá fundi Katrínar Jakobsdóttur og Guðna Th. Jóhannessonar í síðasta mánuði. vísir/gva
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mun leitast eftir því að mynda fjölflokka stjórn á vinstri væng stjórnmálanna, eða frá miðju til vinstri, eins og hún orðaði það á Bessastöðum rétt í þessu þegar hún tók við stjórnarmyndunarumboðinu frá forseta Íslands.

Hún segist ætla að ræða við þingflokk Vinstri grænna í dag og en á morgun ætlar hún sér að ræða við fulltrúa allra flokka. Í kjölfarið verður farið betur yfir það hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Hún sagði alla flokka gera sér grein fyrir því að það sé ábyrgðarhluti að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Spurð hvort að líkur væri á því að Vinstri grænir færi í stjórn með Sjálfstæðisflokknum sagði hún að fyrsta val Vinstri grænna liggi fyrir, en ef það gengur ekki upp þurfi einhvern veginn að ná þessu markmiði, að mynda starfhæfa stjórn.

Spurð hvort að þessir flokkar á vinstri vængnum, Vinstri græn, Viðreisn, Björt framtíð, Píratar og Samfylkingin, geti náð saman í stærstu málunum, líkt og sjávarútvegsmálum og Evrópumálum, sagði Katrín að það yrði að takast á við það þegar þar að kemur.

Hún viðurkenndi að auðvitað væru þessir flokkar ósammála að mörgu leyti en hún vildi frekar horfa í það sem sameini þá.

Hún þarf að gefa forseta Íslands skýrslu um stöðu mála um komandi helgi og sagði það vera skiljanlegan tímafrest, það sneiðist um tímann eftir því sem líður frá kosningum og hún yrði einfaldlega að láta þann tíma duga.


Tengdar fréttir

Fimm flokka stjórn frá vinstri að miðju fyrsti kostur

Katrín Jakobsdóttir fer á fund forseta í dag og fær formlegt umboð til stjórnarmyndunar. Fyrsti kostur Katrínar er fimm flokka stjórn án núverandi stjórnarflokka. Umræddir flokkar segjast tilbúnir ef málefnasamstaða næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×