Fótbolti

32 liða Heimsmeistarakeppni félagsliða í burðarliðnum hjá FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. Vísir/Getty

Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur háleitar hugmyndir um að gera Heimsmeistarakeppni félagsliða að stórviðburði í knattspyrnuheiminum.

Heimsmeistarakeppni félagsliða fer fram í desember á hverju ári og verður seint talin með vinsælasta knattspyrnumóti tímabilsins. Meistaralið Evrópu og Suður-Ameríku koma bæði inn í undanúrslitin og mætast oftast í úrslitaleiknum.

Ítölsk og spænsk blöð hafa það eftir Gianni Infantino að núna sé kominn tími til að breyta þessu og að ný glæsileg Heimsmeistarakeppni félagsliða verði komin á laggirnar árið 2019.

Gianni Infantino vill að þetta verði 32 liða keppni sem fari fram síðustu þrjár vikurnar í júnímánuði. Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport og spænska blaðið El Mundo Deportivo voru bæði með frétt um þessa framtíðarsýn forsetans.

Næsta heimsmeistarakeppni félagsliða fer fram í Japan í næsta mánuði. Real Madrid frá Spáni og kólumbíska liðið Atletico Nacional eru líkleg til að mætast í úrslitaleiknum.

Infantino vill stækka keppnir FIFA því áður hefur komið fram mikill áhugi hans fyrir því að stækka heimsmeistarakeppni landsliða upp í 40 eða 48 þjóða keppni. Hann er þegar kominn með þær hugmyndir inn á borð hjá framkvæmdastjórn FIFA.

Hvort að það sé pláss fyrir svona 32 liða keppni á hverju knattspyrnuárinu verður að koma í ljós en álagið er þegar mikið á bestu knattspyrnumenn heims.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.