Innlent

Þrír karlar og ein kona í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á íkveikju í Hafnarfirði

Birgir Olgeirsson skrifar
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir fólkinu vegna rannsóknarhagsmuna.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir fólkinu vegna rannsóknarhagsmuna. Vísir/Eyþór
Þrír karlar og ein kona eru í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á eldsvoða á húðflúrstofu í Hafnarfirði aðfaranótt síðastliðins þriðjudags.

Þau voru handtekin í aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra í gær. Gerð var húsleit á sjö stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins. Fjórir voru handteknir um morguninn en einn síðdegis. Alls voru því fimm einstaklingar handteknir en einn þeirra var látinn laus í gær en hinir úrskurðaðir í viku langt gæsluvarðhald.

Sjá einnig: Fjórir í gæsluvarðhaldi eftir aðgerð sérsveitarinnar vegna rannsóknar á íkveikju

Rannsókn lögreglu beinist að því hver kastaði tívolíbombu inn um rúðu á húðflúrstofunni Immortal Art í Dalshrauni í Hafnarfirði en allir innanstokksmunir stofunnar eyðilögðust í eldinum.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir fólkinu vegna rannsóknarhagsmuna.

„Við mátum það ekki þannig að það væri hætta á því að þetta mundi verða einhver faraldur,“ segir Grímur. Var fremur horft í það að þeir sem liggja undir grun vegna málsins samræmi ekki frásagnir eða hafi ekki áhrif á vitni.

Spurður hvort málið sé rannsakað sem skipulögð glæpastarfsemi svarar Grímur því neitandi, einungis sé verið að reyna að komast að því hver kveikti eldinn.

Spurður hvort eigendur húðflúrstofunnar hafi notið verndar frá lögreglunni eftir að rannsókn málsins svarar Grímur: „Ég get ekki farið út í það.“

Stundin og DV hafa greint frá því að um sé að ræða deilur vegna húðflúrmarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu, en húðflúrstofan í Hafnarfirði hafði verið opin í einn sólarhring þegar tívolíbombunni var kastað þangað inn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×