Arnór Smárason hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn vegna meiðsla Björns Bergmanns Sigurðarsonar.
Björn Bergmann tognaði í nára í leik Molde og Lilleström í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag. Hann getur því ekki leikið með íslenska landsliðinu í leikjunum gegn Króatíu og Möltu.
Arnór, sem leikur með Hammarby í Svíþjóð, kemur inn í hópinn í stað sveitunga síns. Arnór, sem er 28 ára, hefur leikið 18 A-landsleiki, þann síðasta gegn Bandaríkjunum fyrr á þessu ári.
Björn Bergmann er annar leikmaðurinn sem dettur út úr landsliðshópnum eftir að hann var tilkynntur á föstudaginn. Áður hafði Aron Elís Þrándarson komið inn fyrir Emil Hallfreðsson sem er meiddur.
Skagamaður inn fyrir Skagamann

Tengdar fréttir

Emil ekki með vegna meiðsla | Aron Elís kemur inn í landsliðshópinn
Emil Hallfreðsson, leikmaður Udinese á Ítalíu, hefur dregið sig út úr íslenska landsliðshópnum sem mætir Króatíu og Möltu vegna meiðsla.

Hópurinn sem mætir Króatíu: Hvorki Alfreð né Kolbeinn verða með
Íslenska fótboltalandsliðið verður án sinna tveggja helstu markaskorara þegar það mætir Króatíu í undankeppni HM 2018 og Möltu í vináttuleik.