Innlent

„Ekkert komið á teikniborðið sem manni þykir líklegra en annað“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé hafa myndað bandalag í stjórnarmyndunarviðræðunum.
Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé hafa myndað bandalag í stjórnarmyndunarviðræðunum. vísir/Anton Brink
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir viðræður formanna flokkanna um mögulega stjórnarmyndun enn sem komið er óformlegar. Töluverður munur sé á málefnum flokkanna sem finna þurfi flöt á. Hann segir ljóst að Viðreisn og Björt framtíð séu nokkuð samstíga í sínum málefnum.

„Við í Bjartri framtíð og Viðreisn höfum verið samstíga í þessum viðræðum af því að við sáum til samans að það er ansi mikill styrkur á hinni frjálslyndu miðju eins og mætti kalla hana. Það er svona kannski þriðji póllinn í pólitíkinni sem kemur upp úr kosningunum, sem er kannski ekki til þess að einfalda málið,“ sagði Óttarr í Bítinu í morgun.

„Það er ekkert launungarmál að það er talsverður munur á málflutningi Sjálfstæðisflokks og okkar, þegar kemur að landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, gjaldmiðilsmálum, umsókn að ESB og fleiri svona málum þar sem það er ansi langt á milli flokkanna.“

Óttarr segir fátt benda til annars en að viðræðurnar dragist eitthvað á langinn. „Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta myndi dragast aðeins á langinn, bara hreinlega vegna þess hvernig staðan er,“ segir hann. „Það er ekkert komið á teikniborðið sem manni þykir líklegra en annað.“

Hlusta má á viðtalið við Óttar í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×