Fótbolti

Howard Webb þorði ekki að segja heiminum frá þráhyggju sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Howard Webb í úrslitaleik HM 2010.
Howard Webb í úrslitaleik HM 2010. Vísir/Getty
Howard Webb var á sínum tíma fremsti fótboltadómari heims en enginn fékk að vita af því að hann glímdi við andleg veikindi á sama tíma.

Howard Webb dæmdi meðal annars bæði úrslitaleik HM og úrslitaleik Meistaradeildarinnar sumarið 2010 en hann hefur nú lagt flautuna á hilluna.

Howard Webb hefur gert upp ferill sinn í nýrri ævisögu og þar segir hann í fyrsta sinn frá glímu sinni við mikla þráhyggju.

Eitt af skiptunum sem þessi þráhyggja hans kom fram var í aðdraganda úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Suður-Afríku 2010 en þar mættust Holland og Spánn. Webb fékk að dæma leikinn aðeins rúmum mánuði eftir að hann dæmdi úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Howard Webb segir frá því að hann hafi farið hvað eftir annað í og úr dómaratreyjunni inn í búningsklefanum. Alls fór hann sex sinnum aftur úr dómaratreyjunni áður en hann gat loksins haldið áfram undirbúningi sínum fyrir leikinn.

„Neikvæðar hugsanir komu alltaf aftur og aftur. Ég fann kvíðann magnast og varð bara að fara aftur úr til að losna við kvíðann,“ segir Webb í ævisögu sinni.

Howard Webb segist aldrei hafa dottið það í hug að segja frá þráhyggju sinni á þeim tíma sem hann var starfandi dómari enda viss um að hann fengi mjög neikvæð viðbrögð.

"Dómari verður að gefa þá mynd af sér að hann sé ákveðinn og fullur sjálfstrausts,“ sagði Howard Webb.

Webb segist vera stoltur af úrslitaleiknum á HM 2010 en hann fékk þó mikla gagnrýni fyrir að hafa ekki rekið Hollendinginn Nigel de Jong af velli fyrir ljótt brot á Xabi Alonso. Webb gaf samt fjórtán gul og eitt rautt í leiknum.

„Sumir leikir eru bara ómögulegir að dæma. Þessi var einn af þeim,“ sagði Howard Webb.

Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×