Fótbolti

Freyr: Þetta var eins og leikur á stórmóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. Mynd/Youtube-síða KSÍ
Freyr Alexandersson var í viðtali á Youtube-síðu Knattspyrnusambands Íslands eftir 2-2 jafntefli íslenska kvennalandsliðsins við það kínverska á Sincere Cup æfingamótinu í Kína í dag.

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegur leikur, bæði að takast á við og spila. Þetta voru frábærar aðstæður til að spila svona leik og langt frá því að vera einhver æfingaleikja-tilfinning í kringum leikinn því umgjörðin hjá kínverska sambandinu var fyrsta flokks,“ sagði Freyr í viðtali við Hilmar Þór Guðmundsson, fjölmiðlafulltrúa íslenska liðsins.

„Hér voru fullt af áhorfendum með mikil læti og ég fékk þá tilfinningu að þetta væri alvöru leikur. Það er virkilega mikilvægt,“ sagði Freyr.

„Varðandi frammistöðuna þá er ég hrikalega ánægður með liðið. Á löngum köflum spiluðum við mjög vel. Við spiluðum vel í vörninni eiginlega allan leikinn en það eru tvö til þrjú atvik sem hefðu getað farið betur,“ sagði Freyr.

„Við erum búnar að taka tvær æfingar og tvo fundi fyrir leikinn með þessu nýja leikkerfi og þessum nýju áherslum. Ég er bara mjög sáttur,“ sagði Freyr.

„Jafntefli er bara sanngjörn niðurstaða. Við vorum betri í fyrri hálfleik en þær voru betri í þeim síðari. Þær eiga skot í stöng og slá en við eigum skalla í slá og niður á línu. Sumir sögðu að hann hafi verið inni en aðrir ekki,“ sagði Freyr.

„Þetta var fínt jafntefli. Góð frammistaða og gott hugarfar. Ég bað um að liðið myndi skila góðri frammistöðu og það gerði það,“ sagði Freyr.

„Ég sagði það við Ása (aðstoðarþjálfara) að ég vonaði að við næðum að gíra okkur upp úr æfingaleikjastemmningunni og fá góða frammistöðu. Það vantaði ekkert upp á það því þetta var eins og leikur á stórmóti,“ sagði Freyr.

Það er hægt að finna allt viðtalið við Frey hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×