Enski boltinn

Sir Alex: Liverpool mjög líklegt til að vinna titilinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp er að gera góða hluti á Anfield.
Jürgen Klopp er að gera góða hluti á Anfield. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Liverpool komi svo sannarlega til greina sem sigurvegari í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Hann er mjög hrifinn af Jürgen Klopp sem, að hans sögn, er búinn að endurvekja einkenni félagsins.

Ferguson var maðurinn sem felldi Liverpool af stallinum sem sigursælasta félag Englands. Liverpool hefur unnið 18 Englandsmeistaratitla en Ferguson kom United í 20 áður en hann hætti.

Liverpool hefur ekki unnið ensku deildina síðan 1990 en nú gæti biðin verið á enda. Liðið er með 20 stig eins og Manchester City og Arsenal þegar níu umferðir eru eftir. „Klopp hefur staðið sig mjög vel og endurvakið áhugann hjá Liverpool,“ segir Sir Alex í viðtali við þýska tímaritið Kicker.

„Það getur alveg komið fyrir að stórlið missi það. Í tvo áratugi skipti Liverpool um knattspyrnustjóra án þess að finna sitt einkenni.“

„Það verður að telja Liverpool líklegt til að vinna titilinn á þessu tímabili. Maður sér bara hversu einbeittur Klopp er á hliðarlínunni. Ég er viss um að hann er eins á æfingum. Hann er stór persónuleiki og það er mikilvægt hjá svona stóru félagi,“ segir Ferguson.

Aðeins eitt stig skilur að liðin í fimm efstu sætunum en Manchester United er svo sex stigum frá toppliðunum undir stjórn José Mourinho.

„Það eru fimm lið líkleg til að vinna titilinn. Manchester City er sigurstranglegast en svo koma Tottenham og Liverpool. United getur líka unnið ef það finnur stöðugleika fljótlega,“ segir Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×