Erlent

Framleiðandi The Apprentice fordæmir framboð Trump

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Burnett og Trump meðan allt lék í lyndi.
Burnett og Trump meðan allt lék í lyndi. Vísir/Getty
Mark Burnett, sjónvarpsþáttaframleiðandinn sem kom Donald Trump á kortið með þáttunum The Apprentice, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann fordæmir forsetaframboð Trump. Burnett segist afneita „hatrinu, misskiptingunni og kvenhatrinu sem hefur verið mjög óheppilegur hluti af kosningabaráttu hans.“ Yfirlýsing Burnett birtist samhliða því að fjöldi kvenna hefur ásakað Trump um kynferðisbrot.

Síðustu daga hafa fjölmargir krafist þess að Burnett birti efni frá tökum á The Apprentice, en margir þeirra sem störfuðu við gerð þáttanna hafa sagt að þar megi finna efni þar sem Trump sést haga sér á groddalegan og særandi hátt.

Burnett segist ekki hafa lagalegan rétt til að birta efni frá The Apprentice, og vill ekki gefa upp hvort slíkt efni sé til. Metro-Goldwyn-Mayer, fyrirtækið sem á framleiðslufyrirtæki Burnett og skrár þess, tekur í sama streng.

Sjá einnig:Konur saka Trump um kynferðisbrot

Samkvæmt heimildum The New York Times, þarf að fá leyfi frá Trump til að birta áður óútgefið efni úr þáttunum, og er það hluti af samningi Trump frá gerð þáttarins. Slíkar klausur eru víst ekki óalgengar við gerð raunveruleikasjónvarps. Hins vegar hafa margir bent á að slíkar klausur eigi aðeins við í þeim tilvikum þar sem beinn hagnaður er af birtingu efnisins, til dæmis ef gera ætti annan þátt. Hún eigi þó ekki við ef um heimild er að ræða. Talið er að Mark Burnett vilji einfaldlega halda Trump góðum og neiti þess vegna að birta efnið.

Raddirnar sem krefjast þess að myndefnið sé birt eru orðnar nokkuð háværar og talið er að Mark Burnett geti ráðið niðurlögum Trump. Til að mynda hafa fjölmargir undirskriftasafnanir sprottið upp á netinu og kvenréttindahópurinn UltraViolet hyggst fljúga til Los Angeles og krefjast þess að MGM og NBC birti efnið, en The Apprentice eru sýndir á NBC. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×